Hugmyndafræði hjúkrunar og heimilisins byggir á umhyggju fyrir einstaklingnum þar sem sjálfræði hans er virt í allri umönnun. Heimilisandi og virðing fyrir einkalífi hvers íbúa er ráðandi um leið og vellíðan og öryggiskennd hlýst af sambýli og sólarhringshjúkrunarþjónustu. Athafnir daglegs lífs eru viðfangsefnið í hverju sambýli með áherslu á sjálfræði og þátttöku íbúa sem og aðstandenda þeirra eftir getu, óskum og vilja hvers og eins.

Gildi Sólvangs eru umhyggja, virðing, vellíðan og sjálfræði

Umhyggja fyrir einstaklingnum og hans velferð er í fyrirrúmi. Um leið og við styðjum og hvetjum íbúa veitum við hlýju og umhyggju.

Við berum virðingu fyrir einkalífi íbúa og komum fram við þá af virðingu, skilningi og nærgætni.

Við leggjum grunn að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt því að veita öryggi meðal annars með virku gæðaeftirliti með þjónustunni. Athafnaþrá er mætt og við höldum í gleðina í daglegu lífi.

Sjálfræði einstaklingsins er virt í allri umönnun. Sjálfsbjargargetu hans er viðhaldið um leið og hann er aðstoðaður við að laga sig að breyttum aðstæðum.