Sólvangur var reistur af Hafnarfjarðarbæ og var formlega vígður 25. október 1953. Í upphafi voru starfræktar á Sólvangi, hjúkrunardeild, sjúkradeild með skurðstofu og fæðingardeild.  Árið 1976 var fæðingardeildinni lokað og fæðingum beint á kvennadeild Landspítalans í Reykjavík. Í dag eru starfandi á Sólvangi þrjár hjúkrunardeildir.

Í lok árs 2004 var tekinn í notkun salur á fyrstu hæð, sem áður hýsti röntgendeildina.  Við þá breytingu gjörbreyttist öll félagsaðstaða en þar eru haldnar kvikmynda og málverkasýningar, boccia, bingó og söngskemmtanir. Einnig er hægt að bjóða heimilisfólkinu og starfsfólki afnot af salnum. Breytingarnar á salnum voru að mestu leyti kostaðar af gjafafé Jóns Bjarnasonar frá Hafnarfirði, en búnaðar allur og húsgögn eru gefin af ýmsum velunnurum Sólvangs.

Árið 1988 var tekin í notkun 2195 ferm. viðbygging við Sólvang. Þar af er heilsugæslustöðin Sólvangi með 1123 fermetra og hjúkrunarheimilið með 1062 fermetra.

Í viðbyggingunni sem tilheyrir hjúkrunarheimilinu er nú starfrækt eldhús, borðsalur starfsmanna, þvottahús, saumastofa, búningsherbergi, og geymslur. Einnig er aðstaða fyrir símstöð, rafstöð, loftræstibúnað o.fl.

Á árunum 1991-2019 var rekstur Sólvangs alfarið á vegum ríkissjóðs. Í apríl 2019 tók Sóltún öldrunarþjónusta ehf við rekstrinum í kjölfar útboðs ríkisins.  Hafnarfjarðarbær er skráður eigandi fasteignarinnar.