Eftirfarandi reglur gilda ef heimsfaraldur er ekki í gangi. Vinsamlegast kynnið ykkur nýjustu reglur á forsíðu www.solvangur.is eða á https://solvangur.is/heimsoknarreglur/.

Heimilismenn geta tekið á móti gestum allan daginn og er gestum bent á að nota dyrasíma eftir lokun á kvöldin. Mikil þörf er fyrir stuðning fjölskyldunnar þegar aldurinn færist yfir og heilsan brestur. Heimsóknir aðstandenda stytta daginn, veita styrk og efla fjölskyldutengslin. Aðstandendur eru alltaf velkomnir og er þátttaka þeirra vel þegin. Kærkomið er að aðstandendur veiti tilbreytingu í formi gönguferða, bílferða, fjölskylduboða og annað. Einnig hvetjum við aðstandendur til að taka þátt í uppákomum sem haldnar eru á heimilinu s.s. jólagleði, þorrablótum, Sólvangsdegi og vera til aðstoðar fyrir ættingja.

Heimilismaður er frjáls ferða sinna til lengri eða skemmri tíma. Af öryggisástæðum þarf þó að tilkynna vakthafandi hjúkrunarfræðingi um fjarveru.

Tengsl við aðstandendur

Flutningur nákomins ættingja á hjúkrunarheimili getur reynst aðstandendum erfitt ferli. Starfsmenn Sólvangs eru alltaf boðnir og búnir til að aðstoða og leggjum við mikið upp úr góðum tengslum við aðstandendur. Hvetjum við aðstandendur til að hafa samband við viðkomandi hjúkrunarstjóra ef einhverjar spurningar vakna auk þess sem aðstandendur geta rætt við framkvæmdastjóra hjúkrunar.

Mikilvægt er að aðstandendur tilkynni hjúkrunarstjóra um símanúmer, netföng og heimiliföng sín. Einnig er brýnt að tilkynna ef einhverjar breytingar verða. Ef aðstandandi fer í frí er mikilvægt að skilja eftir nafn og símanúmer þess sem má leita til.

Fjölskyldufundir

Fjölskyldufundir eru haldnir með heimilismanni og aðstandendum þar sem farið er yfir stöðuna 3-4 mánuðum eftir að flutt er inn á Sólvang. Hjúkrunarstjóri heldur utan um fundina en einnig er hægt að óska eftir að læknir, sjúkra- og iðjuþjálfi sitji fundina eftir atvikum.

Heimilisfólk og aðstandendur geta óskað eftir fjölskyldufundum hvenær sem þeir telja þörf á.