Við flutning á Sólvang

Fyrir marga getur flutningur á hjúkrunarheimili verið mjög erfiður og erfitt getur verið að aðlagast breyttum aðstæðum. Álagið á aðstandendur getur verið mikið og margvísleg vandamál komið upp. Mikilvægt er að starfsfólk og aðstandendur séu samstíga um aðlögun og hún takist sem best þannig að heimilismaðurinn finni fyrir öryggi og hlýju á nýja heimilinu.

Við flutning fá nýir heimilismenn afhentan bækling með helstu upplýsingum um heimilið fyrir sig og aðstandendur sína.

Lögð er áhersla á vistlegt umhverfi og að heimilismenn hafi persónulega muni með sér, til þess að gera umhverfið notalegra og eins heimilislegt og hægt er. Sólvangur leggur til rafknúið sjúkrarúm, og náttborð. Að öðru leyti kemur hver og einn með sinn húsbúnað.

Þvottur

Sólvangur er með þvottahús sem þvær einkafatnað heimilismanna. Heimilismenn verða að merkja allan fatnað með nafni og á hvaða hæð heimilismaður dvelur. Sólvangur tekur ekki ábyrgð á fatnaði sem glatast. Athugið að Sólvangur tekur ekki að sér þvott á viðkvæmum fatnaði sem ekki þolir vélarþvott og ber ekki ábyrgð á að viðkvæmar flíkur skemmist í þvotti.

Fatnaður

Mikilvægt er að huga að góðum inniskóm sem falla vel að fæti, lágbotna með stömum sóla, ennfremur stöðugum útiskóm, hlýrri yfirhöfn og höfuðfati.

Snyrtivörur

Heimilismaður hefur meðferðis ákveðnar hreinlætis- og snyrtivörur s.s. tannbursta, tannkrem, efni til hreinsunar á gervitönnum ef við á, rakakrem, svitalyktareyði, hárgreiðu, sjampó og aðrar hársnyrtivörur, rakáhöld, rakspíra og þess háttar.

Varðandi tryggingar.

Sólvangur tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum eða innanstokksmunum og heimilismenn eru hvattir til að vera með læstar hirslur fyrir verðmæta muni. Þá geta heimilismenn keypt tryggingar fyrir innbú sitt hjá tryggingarfélögum.

Breytingar á herbergjaskipan

Í starfi okkar höfum við að leiðarljósi jafnrétti og velferð allra heimilismanna, þannig getur þurft að gera breytingar á herbergjaskipan eða tilfærslur á milli heimiliseininga ef alvarleg veikindi eða breytingar á heilsufari koma upp.