Þegar einstaklingur óskar eftir að sækja um hjúkrunarrými á Sólvangi þarf að sækja fyrst um svokallað færni- og heilsumat til Færni- og heilsumatsnefndar í viðkomandi landshluta. Færni og heilsumati þurfa að fylgja upplýsingar frá heilbrigðis- og félagsþjónustu auk upplýsinga frá viðkomandi læknum eftir því sem við á. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Þegar pláss losnar á Sólvangi, þá hefur heimilið tvær efstu kennitölur á lista færni- og heilsumatsnefndar úr að velja. Stjórnendur Sólvangs geta ekki haft áhrif á biðlistann, aðstandendum er bent á að hafa samband við nefndina varðandi forgangsröðun og staðsetningu á biðlistanum.  Einstaklingar raðast á biðlista eftir þörf, þeir sem eru í brýnustu þörfinni á hjúkrunarrými raðast efst.

Upplýsingar um greiðsluþátttöku

Þegar lífeyrisþegi flyst á hjúkrunarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Við það að greiðslur falla niður myndast réttur til vasapeninga sem eru tekjutengdir. Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þátttöku í kostnaði við búsetu á Sólvangi. Frekari upplýsingar og upplýsingar um útreikninga er að finna á heimasíðu TR eða í síma 560 4400. Einnig má hafa samband á netfangið bokhald@solvangur.is.