
Í fallegu umhverfi við Lækinn í Hafnarfirði á Sólvangi verður opnað í september Sóltún Heilsusetur á Sólvangi. Þó allt iði af lífi í umhverfi Sólvangs, Lækjarskóli, leikskólinn á Hörðuvöllum og Lækurinn með öllu sínu lífríki, er ótrúleg ró í þessu gamla húsi í Hafnarfirði sem svo margir þekkja og kjörið umhverfi fyrir endurhæfingu. Heilsusetrinu er ætlað að veita eldri borgurum endurhæfingu sem er unninn í þverfaglegri teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks með það að markmiði að sem best heildarsýn náist yfir ástand fólks og að fólk geti eftir endurhæfinguna dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu við betri lífsgæði.
Dagskráin er byggð upp með það að markmiði að fólk læri um eigin heilsu og vellíðan þannig að það geti bætt heilsu sína marktækt bæði líkamlega og andlega. Hver og einn fær dagskrá sem hentar hverjum og einum og við útskrift er lögð áhersla á að einstaklingurinn hafi úrræði til að viðhalda og bæta heilsu og vellíðan eftir dvölina, á eigin heimili.
Miðað er við að fólk sé að jafnaði í 4 vikur í endurhæfingunni og það dvelji allan sólarhringinn á heilsusetrinu. Þeir sem geta notfært sér þjónustuna þurfa að vera orðnir 67 ára skjólstæðingar heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og mun heimahjúkrun og heilsugæslan hafa milligöngu um að sækja um endurhæfinguna. Heilbrigðisyfirvöld eru með þessari nýsköpun að fjárfesta í forvörnum og heilsueflingu aldraðra og eiga hrós skilið fyrir, þar sem dvölin verður að fullu niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.
Þeir sem starfa í endurhæfingunni í Sóltúni heilsusetri verða mest fagfólk með aðstoðarfólki, svo sem hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, sjúkraþjálfari, íþróttafræðingur, iðjuþjálfi, læknir og félagsráðgjafi, þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum til að styrkja skjólstæðingana. Aðstoðarfólkið kemur til með að vinna gefandi og fjölbreytt starf undir handleiðslu þessara fagaðila, ásamt því að veita skjólstæðingum aðstoð með athafnir daglegs lífs. Lögð verður mikil áhersla á leiðsögn, fræðslu og tæki, sem dugar einstaklingum til að halda áfram að bæta lífsgæði sín þegar heim er komið og sem dæmi má nefna að stefnt verður að notkun velferðartækni sem Sóltún Heima heimaþjónusta hefur notað frá 2017 á heimilum fólks með frábærum árangri, en það er danskt styrktaræfingakerfi sem heitir DigiRehab. Þjálfunin er miðuð að því að styrkja viðkomandi markvisst með sérsniðnu prógrammi. Kosturinn við það er að einstaklingurinn kynnist því á heilsusetrinu og getur haldið áfram með prógrammið þegar heim er komið til að efla og viðhalda styrk með því að gera æfingarnar með leiðsögn tvisvar í viku í 20 mínútur.
Orðatiltækið góð heilsa er gulli betri á einkum vel við á efri árum og sérstaklega er mikilvægt að setja heilsuna í forgang þegar aldurinn færist yfir, með öllum tiltækum ráðum. Þannig stuðlum við að bættum lífsgæðum og búum lengur heima sjálfstæð. Setjum okkur það markmið að verða eldri og betri og gerum eitthvað í því!
Grein eftir Hrönn Ljótsdóttur, verkefnastjóra Sóltúns Heilsuseturs sem birtist í Fréttablaðinu 29. júlí 2022.
Nánari upplýsingar eru í netfanginu heilsusetur@solvangur.is.