
Í byrjun árs kom til starfa nýr iðjuþjálfi á Sólvangi, Eva Hagalín Jónsdóttir. Eva hefur starfað sem iðjuþjálfi á Landspítala og á öðrum hjúkrunarheimilum, auk annarra starfa.
Markmið iðjuþjálfunar á Sólvangi er að efla og viðhalda líkamlegri færni og vitrænni getu íbúa. Einnig að stuðla að félagslegri þátttöku í gegnum markvissa íhlutun. Áhersla er lögð á sjálfræði og hvatningu til sjálfshjálpar þannig að íbúar fái tækifæri til að vera virkir í eigin umsjá eins og kostur er. Innsýn í lífssögu íbúa gefur tækifæri á að mæta hverjum og einum út frá áhugasviði og hlutverkum fyrr og nú.
Iðjuþjálfi leitast við að skapa tækifæri til iðju sem er íbúum mikilvæg þannig að þátttaka veiti hverjum og einum tilgang, gleði og vellíðan. Íhlutun er einstaklingsmiðuð og horft er á samspil einstaklings, umhverfis og iðju. Iðjuþjálfun getur verið veitt sem einstaklingsmeðferð og í gegnum hópastarf. Iðjuþjálfi veitir ráðgjöf og fræðslu og kemur að mati og útvegun hjálpartækja.
Dæmi um íhlutun iðjuþjálfa á Sólvangi:
Handafimi
Boðið er uppá heita bakstra á hendur og herðar. Liðkandi æfingar gerðar á eftir og styrkur efldur með þar til gerðum boltum og gripstyrksþjálfum. Markmiðið er að viðhalda liðleika og handstyrk og reynir á þátttakendur að fylgja sjónrænum og munnlegum leiðbeiningum.
Endurminningastarf
Notaðar eru minningakveikjur eins og t.d. gamlir munir(sjónrænt, snerting), myndefni og tónlist/hljóð t.d. ölduniður eða fuglasöngur(heyrn), matur/sætindi(bragðskyn), snyrtivörur/ilmur(lyktarskyn), efnisbútar, ull, fjörusteinar(snertiskyn). Einnig er unnið með að beita kunnuglegum áhöldum t.d. að nota eldhús-og smíðaáhöld, ullarkamba og skrifstofuvörur. Endurminningastarf hefur þann tilgang að örva fjarminni í gegnum minningakveikjur, stuðla að tengslamyndun og virkri þátttöku sem getur haft mikið meðferðargildi. Reynsla sýnir að starfið geti stuðlað að auknu sjálfstrausti og lífsfyllingu og þannig aukið vellíðan þátttakenda.
Tónlist
Tónlistarklúbbur, tónlistarbingó og söngstund: í tónlistarklúbb er spiluð valin tónlist frá ákveðnum tímabilum og áhugasviði þátttakenda, farið er yfir sögu og feril tónlistarmanna og hljómsveita og rætt í hópnum. Tónlistarbingó er spilað þannig að notast er við bingóspjöld með nöfnum á lögum. Spilaðir eru lagabútar og hjálpast er að við að giska á nafn lags. Sá vinnur sem nær fyrstur öllum lögum á sínu spjaldi. Í söngstund er sungið saman, bæði með undirleik og án og leitast við að hafa texta fyrir alla þátttakendur. Markmið með þátttöku í starfi þar sem notuð er tónlist er að örva minni og kalla fram þátttöku í söng og hreyfingu/dansi.