
Ágæti aðstandandi
Heimsóknir verða leyfðar inn á Sólvang hjúkrunarheimili frá og með 4. maí næstkomandi með ákveðnum takmörkunum. Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ítrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Stuðst er við tilmæli Samráðshóps um starfsemi hjúkrunarheimila og dagdvala í COVID-faraldri um eftirfarandi tilslakanir.
Einnig er nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma. Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020.
Vinsamlega kynnið ykkur vel eftirfarandi heimsóknarreglur. Ef vel gengur í baráttunni við veiruna, verður tíðni heimsókna aukin.
Leiðbeiningar til aðstandenda
Forvarnir
- Við hvetjum ykkur til að hlaða niður í símana ykkar smitrakningnarappi almannavarna Rakning C-19 fyrir 4. maí.
- Ekki panta heimsóknartíma og ALLS ekki koma í heimsókn ef: a) Þú ert í sóttkví b) Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku c) Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. d) Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Hver kemur
Ættingjar koma sér saman um hver það verður sem nýtir heimsóknarleyfið hverju sinni og sá hinn sami pantar tíma. Það þarf ekki að vera sá hinn sami viku eftir viku. Ekki er gert ráð fyrir að börn og ungmenni (yngri en 14 ára) komi í heimsókn. Börn (14-18 ára) geta komið í heimsókn ef þau eru nánasti aðstandandi og koma þá einsömul.
Hvenær?
Þú velur einn dag vikunnar (mán-sun) og einn af fyrirframákveðnum heimsóknartímum (sjá hér fyrir neðan) svo framarlega sem sá tími er laus (best er að bóka allar vikurnar í einu).
Heimsóknartímar eru eftirfarandi:
- 1. hæð: 13:50 – 14:50 / 18:30 – 19:30
- 2. hæð: 14:00 – 15:00 / 18:40 – 19:40
- 3. hæð: 14:10 – 15:10 / 18:50 – 19:50
Hver heimsókn má ekki standa lengur yfir en 1 klukkustund.
Það er takmarkaður fjöldi sem getur verið í heimsókn í einu á hverjum tíma. Hafið samband við Sólvang í eftirfarandi símanúmer og pantið heimsóknartíma.
Tökum við pöntunum frá og með mánudeginum 27. apríl í síma:
- 1. hæð: 844-5271
- 2. hæð: 859-6622
- 3. hæð: 844-5278
Þegar þú mætir
Þegar þú kemur í húsið í bókaða tímann þinn, sprittar þú hendur áður en þú hringir bjöllunni á viðkomandi hæð. Athugið að aðeins einn má bíða inni í anddyrinu í einu til að virða 2ja metra regluna. Svo hinkrar þú eftir starfsmanni í anddyrinu við sprittstöðina (bara einn má vera inni í forstofunni í einu). Starfsmaðurinn fylgir þér til þíns ástvinar. Ekki koma við neitt í almannarýmum, farið beint inn til íbúa.
Virðið 2ja metra regluna og forðist snertingu við íbúa eins og hægt er. Knúsið verður að bíða betri tíma.
Ef þú ætlar að koma með eitthvað fyrir þinn nánasta, vinsamlegast fylgið þeim reglum sem áður hafa verið gefnar út varðandi sóttvarnir, þ.e. hlutir komi helst í upprunalegum umbúðum sem er auðvelt að sótthreinsa við móttöku.
Þegar þú ferð
Þegar heimsókn er lokið sprittið hendur áður en þið yfirgefið íbúð ástvinar. Farið beint út að heimsókn lokinni. Athugið að heimsóknin er til ættingja þíns, staldrið ekki við til að ræða við aðra íbúa, ættingja eða starfsfólk. Ef það þarf að ræða eitthvað við starfsfólk, notið símann og hringið seinna.
ATHUGIÐ: Ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma, munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný.
Að lokum, verið hjartanlega velkomin aftur og nýtið tímann vel!
Kveðja, Neyðarstjórn Sólvangs